Að veiða sjóbleikju á stöng er frábær skemmtun og svo er nýgengin sjóbleikja auðvitað einstakt lostæti líka. Því miður hefur verið nokkur niðursveifla í veiði á sjóbleikju undanfarin ár og telja margir að þar sé um að kenna hlýnandi veðurfari vegna gróðurhúsaáhrifa. Ekki skal lagt mat á það hér, en víst er að bleikjan er sú tegund ferskvatnsfiska hér á landi sem þrífst best í köldu vatni, enda eru helstu búsvæði hennar á norðurhelmingi landsins. Það er samt öllum ljóst sem stunda veiðar að bleikjan er á undanhaldi, en sjóbirtingur, sem þrífst betur í aðeins hlýrra vatni, í mikilli sókn.
Sjóbleikja tekur að ganga í ár á norður- og norðvesturlandi í lok júní, en kraftmestu göngurnar koma svo í júlí og ágúst. Á austurland og þá sérstaklega í minni árnar á fjörðunum gengur hún seinna og einkum þegar húmar að hausti og nætur verða dimmar. Sunnan heiða er töluvert af sjóbleikju í Skaftafellssýslu og gengur snemma – margir hafa gert góða veiði í Grenlæk í júní þegar fyrstu „kusurnar“ stimpla sig inn.
Sá sem þetta skrifar hefur veitt sjóbleikju í meira en 40 ár og veit ekkert skemmtilegra. Garðar heitinn Svavarsson, sá mikli veiðimaður, kom mér á bragðið í Miðfjarðará í lok áttunda áratugarins þegar hann kenndi mér að veiða á örtúpur á strippi. Þá voru Blue Charm, Hairy Mary og Teal and Black bestar fyrir bleikjuna, og reyndar líka laxinn, og þær standa enn fyrir sínu. Stundum þarf líka að fara aðeins dýpra og þá eru örkeilur málið, Black&Blue kemur sterk inn og líka Haugur, svo má ekki gleyma rauðum Frances á gullkrók.
En svo vilja þær stundum bara alls ekki þetta nammi og þá þarf að fara í kúluhausa og andstreymisveiði. Þá er það Krókurinn, Peacock, Beykir og Peter Ross sem virka. Í ísöltum sjávarlónum eins og td Hópinu og Húnavatni er Nobblerinn gríðarlega sterkur ólífugrænn með rauðum haus, svartur og bleikur og líka Cardinelle. Og svo auðvitað líka eitthvað allt annað – hugsaðu út fyrir boxið, lagsi – og umfram allt góða skemmtun!