Selá í Álftafirði
Selá í Álftafirði er eitt best geymda leyndamálið í laxveiði á Íslandi. Áin rennur um gljúfur í stórbrotinni náttúru og fellur til sjávar við Álftafjörð. Áin hefur að geyma 21 merkan veiðistað og er þekkt fyrir stóra laxa sem auðvelt sjá í kristaltærri ánni. Selá í Álftafirði rennur um Starmýrardal og er staðsett um 60 km frá Höfn í Hornafirði eða um 500 km frá Reykjavík.
Selá hefur upp á allt að bjóða þegar kemur að fjölbreyttri veiði; djúpir hylir og langar breiður sem geta geymt lax á stóru svæði. Veiðin hefur verið einna best síðsumars en þó hefur verið gerð góð veiði snemma í júlí. Séð frá þjóðvegi 1 lætur áin lítið fyrir sér en ef keyrt er eftir gamla veginum yfir Lónsheiði er hægt að sjá hversu mögnuð áin er. Selá í Álftafirði er dragá og getur því orðið mjög vatnslítil í miklum þurrkum. Hún er að sama skapi fljót að ná sér aftur á strik þegar byrjar að rigna og gera menn þá oft mjög góða veiði.
Frá árinu 2014 hefur áin verið friðuð. Það ár hófst mikið ræktunarátak þegar nýir leigutakar hófu mikla ræktun upp í ánni með reglubundnum seiðagreftri. Seiðarannsóknir seinustu ára gefa til kynna að þéttleiki seiða hefur aukist jafnt og þétt og má því búast við að þessi mikla vinna fari að skila sér í meiri laxagengd á næstu árum. Fyrir friðun var gengið mjög nærri stofn árinnar en hún er einkar viðkvæm og hafa því bændur í samráði við fiskifræðinga aðeins leyft flugu og skal sleppa öllum veiddum laxi til þess að halda við þá góðu uppbyggingu sem byrjað var á árið 2014.
Selá í Álftafirði er dæmigerð íslensk dragá og í miklum rigningum getur hún orðið að stórfljóti. Að því sögðu má gera ráð fyrir að einhverjir veiðistaðir breytist á milli ára og þegar mikil fljót verða má búast við að seiðabúskapur árinnar geti raskast á milli ára.
Upplýsingar
Helstu flugur
Helsti búnaður
Annað
Nauðsynlegt er að vera með vöðlur meðferðis þar sem veiðimenn þurfa að vaða yfir ána á nokkrum stöðum. Annar búnaður sem þarf í allar veiðiferðir;
- Veiðigleraugu
- Derhúfa
- Vöðlujakki
- Klippur
- Töng
- Myndavél