Hugleiðing í byrjun laxveiðisumarsins 2020

Jæja elsku vinir, þá er þetta er loksins komið af stað eftir Kófið og allt það leiðindar vesen. Það eru búnar að vera afbókanir vinstri, hægri og mörg veiðihús eru enn lokuð, en veiðimenn mæta bara í árnar með nesti og veiða staka daga. Stemmingin í kringum það er mjög sérstök, en almennt eru veiðimenn samt kátir og reifir sem aldrei fyrr.

Laxinn lét ekki bíða eftir sér þetta árið og sáust fyrstu laxarnir strax um miðjan maí á suðvestur horninu og litlu síðar víða um land. Þá er grásleppan líka búin að vera í fínu formi sem þykir alltaf vita á góðar laxagöngur. Veiðin hófst loks 1. júní í Urriðafossi í Þjórsá og gekk strax vel þrátt fyrir mikið vatn og komu 18 laxar á land á opnunardeginum. Síðan opnaði Norðurá 4. júní og Blanda 5. júní og fengust nokkrir fiskar úr þeim báðum og athygli vakti að fiskur var genginn lengst uppí dal í Norðurá og þá voru 15 fiskar strax gengnir upp teljara í Blöndu, en þar verða nú þáttaskil og eingöngu leyfð fluguveiði og skylduslepping á öllum laxi.

Árnar hafa síðan verið að opna ein af annarri og víðast gengið þokkalega, en þó hafa hvergi verið neinar flugeldasýningar, þrátt fyrir gott árferði og mjög gott vatn. Mönnum ber þó alls staðar saman um að það sé mikið líf í ánum og fiskur þegar orðinn nokkuð dreifður sem er óvenjulegt svo snemma. Þannig sáust fiskar í Norðurá við Glitstaðabrú um mánaðarmótin og einn af fyrstu fiskunum í Kjósinni kom úr Króarhamri – sömu sögu er að segja úr Eystri Rangá, Grímsá, Langá og Víðidalsá og eflaust víðar; fiskur er þegar kominn á efstu svæðin.

Á norðausturhorninu hafa verið gríðarlegar leysingar í hlýjindunum undanfarið, sem dæmi fór Selá í Vopnafirði í 260 rúmmetra á sekúndu í byrjun júní (til samanburðar er meðalrennsli Þjórsár 310-360 rúmmetrar). Þrátt fyrir það sáust fyrstu laxarnir þar 10da júní og þá var rennslið enn yfir 50 rúmmetrum – og það er ennþá vel yfir 30 rúmmetrar og því verður spennandi að fylgjast með opnuninni þarna eystra eftir nokkra daga – en það er allavega ljóst að sá silfraði er mættur um allt land.

Það er því ljóst að 2ja ára laxinn gekk óvenju snemma í ár og framan af voru göngur kröftugri en menn hafði órað fyrir eftir lélegt smálaxasumar í fyrra. Nú hefur hins vegar fjarað nokkuð undan þeim göngum og þótt það aðeins farið að örla á smálaxinum, vantar samt ennþá töluvert uppá alvöru göngur til að keyra þetta áfram af fullum krafti. Laxarnir sem eru að veiðast núna eru flestirnir að vera í ánum nokkurn tíma, þótt þeir séu samt allajafna frekar silfraðir og ferskir, og það heyrir nánast til undantekninga að það veiðist lúsugir fiska sem er skrítið á þessum árstíma.

Ég var að koma úr gæderíi í Laxá í Leirársveit, en þar er búin að vera prýðileg veiði og fiskarnir flestir stórir og fallegir, en líka smálaxar í bland – þannig kom 88 cm í Sunnefjufossi í opnun og svo 92 cm úr efsta Vaðstreng á laugardagsmorgun, gullfallegir fiskar og glænýjir, en allir lúslausir. Þar er fínt og fallegt vatn, ef eitthvað er aðeins í hærri kantinum, þar sem staðir eins og t.d. Ljónið eru ansi hraðir, en góðir veiðimenn finna auðvitað ráð við því. Á hádegi 20. júní voru komnir 25 laxar á land sem telst gott í þeirri verstöð. Laxinn er þokkalega vel dreifður um alla á og kominn fiskur alla leið uppí Eyrarfoss. Það verður spennandi að sjá hvað gerist á næstu dögum, enda Jónsmessustraumur í vikunni, en hollningin á ánni er samt miklu betri en síðustu ár. Guð láti gott á vita!

Fyrstu fiskarnir í Fljótá komu líka á laugardag, sannkallaðir gullmolar 78 og 92 cm fiskar sem tóku rauðan Frances og Collie Dog. Morguninn eftir komu svo 2 fallegir fiskar í viðbót á sömu flugur – spegilfagrir og fallegir fiskar.

Þá var snillingurinn Ingó Ásgeirs í miklu stuði í Blöndu fyrir nokkrum dögum og landaði m.a. þessum gullfallega 90 cm fiskum.

Mr. Burns

Fleiri áhugaverðar fréttir

2020-06-24T07:25:04+00:00

Deildu einhverju með okkur...

Go to Top