Okkur hefur oft reynst vel þegar við erum í leiðsögn með óvana veiðimenn, að láta þá nota gáruflugu sem fyrsta kost. Fluga með gárubragði (yfirleitt er þetta samt oftast gárutúpa) er fislétt og truflar yfirborðið lítið, jafnvel þótt köstin séu ekki til fyrirmyndar. Og svo er auðvelt að stytta í og menda línuna aðeins til að losna við allra mesta spagettíið og fá þokkalega gott flot sem virðist yfirleitt duga og svo bara dauðarek og halda stangartoppnum hátt– ekkert vesen með stripp og línustjórnun. Og það sem mestu skiptir: þetta er eitt allra skilvirkasta leitartækið á göngutíma laxins og styggir fiskinn lítið sem ekkert. Jafnvel þótt hann taki ekki fluguna, sem er oftast vegna þess að hún var ekki framreidd á kórréttan hátt, þá kemur hann samt á eftir henni og veiðimaður og leiðsögumaður eiga næstu leiki reynslunni ríkari. Stundum kemur hann strax í næsta kasti og neglir hitsið með látum, en svo getur líka verið að hann vilji ekkert nema Sunray á harðastrippi eða jafnvel tommu Frances sem skrapar botninn á dauðareki.
Tips: Gárubragðið er öflug aðferð til að leita að fiski og styggir jafnframt lítið sem ekkert. Það er því klókt að byrja með gárubragðið framan af sumri og alveg fram í miðjan ágúst.